Hlutabréfamarkaðir, bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu hækkuðu verulega í dag.

Að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins eftir að Vikram Pandit, forstjóri bandaríska bankans Citigroup sendi starfsmönnum bankans minnisbréf þar sem fram kom að fyrsti ársfjórðungur þessa árs yrði líklega sá besti frá því í byrjun árs 2007.

Í Evrópu hækkaði FTSE 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu skráðu félögin á evrópskum mörkuðum, um 5% og hefur ekki hækkað jafn mikið á einum degi frá því í byrjun desember s.l. Vísitalan hefur engu að síður lækkað um 17% það sem af er ári.

„Það er augljóst að markaðurinn er viðkvæmur fyrir slæmum fréttum og enn viðkvæmari fyrir góðum fréttum,“ segir Bob Parker, aðstoðarforstöðumaður eignarstýringar hjá Credit Suisse í samtali við Reuters og vitnar þar í minnisbréf Citigroup.

Þess má geta að Citigroup hefur hækkað um 37% það sem af er degi í Bandaríkjunum.

Eins og fyrr segir voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir í Evrópu. Þannig hækkuðu bankar á borð við BNP Paribas, Banco Santander, Barclays, Credit Suisse, Deutsche Bank, HSBC og UBS á bilinu 10,4%  - 17,7%.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 4,9%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 5,6% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 5,3%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 5,7% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 4,75%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 3,1%, í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 5,4% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 4,7%.

Allt grænt á Wall Street

Nú þegar markaðir hafa verið opnir í tæpar fjórar klukkustundir í Bandaríkjunum hefur Nasdaq vísitalan hækkað um 6,3%, Dow Jones um 5% og S&P 500 um 5,8%. Líkt og í Evrópu eru það bankar og fjármálafyrirtæki sem leiða þessar miklu hækkanir.