Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hækkaði næst mest í janúar af þeim vísitölum sem Kaupþing banki notar til samanburðar. Hún hækkaði um 13,3%.

Greiningardeildin segir hlutabréfamarkaði almennt fara vel af stað.

Otob, rússneska vísitalan, hækkaði mest af þessum vísitölum í síðast liðnum mánuði, með um 22,5% hækkun.

Danska KFX vísitalan var eina samanburðarvísitalan af 17 sem lækkaði. Hún lækkaði um 1,1%.

Norska OBX vísitalan hækkaði um 7,3% og er það að mestu til komið vegna 7,1% hækkunar á olíuverði í janúar og skipar hún þriðja sætið á listanum.

Nasdaq hækkaði um 4% í janúar, en hún hækkaði um 1,5% á öllu síðasta ári.

S&P 500 hækkaði um 2,5%, en hún hækkaði um 3% árið 2005. Dow Jones hækkaði um 1,4%, en lækkaði um 0,6% í fyrra.