Tölur um sölu nýrra heimila í Bandaríkjunum sýndu aukningu en búist hafði verði við samdrætti, er þær voru birtar síðasta föstudag.

Greiningardeild Glitnis nefnir að bandaríski hlutabréfamarkaðurinn hækkaði í kjölfarið en mikið er horft til þess hvaða áhrif staða húsnæðislánamarkaðarins þar í landi er að hafa á íbúðamarkaðinn og hagkerfið í heild. Þannig hækkaði Dow Jones vístalan til dæmis um 1,08% og Nasdaq um 1,38% á föstudaginn

?Hlutabréfamarkaðir í Asíu hækkuðu í nótt í kjölfar þess bandaríska. Velta, bæði í magni og virði, var þó sú lægsta á árinu í Japan og greinilegt er að sumir fjárfestar þar bíða enn eftir að ástandið batni. Markaðir í Evrópu opnuðu sterkir í morgun í takt við markaði í Bandaríkjunum og Asíu og hafa evrópsk hlutabréf nú hækkað í verði sex viðskiptadaga í röð. Markaðir í Bretlandi eru lokaðir í dag,? segir greiningardeildin.

Hún segir áhrifa þessara hækkana í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu gæta hér einnig en íslenskur hlutabréfamarkaður hækkaði við opnun markaða í morgun. Hefur Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,29% það sem af er degi.