Hlutabréfamarkaðir hækkuðu í Asíu í morgun og hafa það sem af er degi einnig hækkað í Evrópu.

Í Asíu munar nokkru um veikingu japanska jensins sem kemur sér vel fyrir útflutningsfyrirtæki en talið er að ef stöðugleiki kemst á fjármálamarkaði í Bandaríkjunum muni einkaneysla ekki dragast jafn mikið saman og menn hafa óttast sem þýðir að sala hjá japönskum útflutningsfyrirtækjum mun ekki dragast jafn mikið saman og óttast hefur verið.

Rétt er að taka fram að útflutningur Japana hefur dregist saman um 45% á einu ári en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar eru langtímahorfur góðar með auknum stöðugleika á vestrænum fjármálamörkuðum.

Það voru helst bíla- og rafmagnstækjaframleiðendur sem leiddu hækkanir dagsins í Asíu ásamt fjármálafyrirtækjum. Þannig hækkaði Toyota um 4,2%, Mitsubishi Financial Group um 3,7% og Samsung um 3,5% svo dæmi séu tekin.

MSCI Kyrrahafsvísitalan hækkaði um 1,7%. Í Japan hækkaði Nikkei vísitalan um 2,7%, í Hong Kong hækkaði Hang Seng vísitalanum 1,6% og í Kína hækkaði CSI 300 vísitalan um 1%.

Í Singapúr hækkaði Straits vísitalan um 0,2% en í Ástralíu lækkaði S&P 200 vísitalan um 0,1%.

Í Evrópu hafa hlutabréf hækkað það sem af er degi eins og fyrr segir og er það í takt við hækkanir á bandarískum mörkuðum í gær. Markaðir hækkuðu vestanhafs í gær eftir að Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna þvertók fyrir allar hugmyndir um mögulega þjóðnýtingu banka og fjármálafyrirtækja þar í landi.

Að sögn Reuters fréttastofunnar hefur það sama leitt til hækkunar í Evrópu í dag.

FTSE 300 vísitalan hefur það sem af er degi hækkað um 1,1%. Í Sviss hefur SMI vísitalan hækkað um 0,9% en mest hafa hlutabréf hækkaði í Osló þar sem OBX vísitalan hefur hækkað um 2,5%. Í Lundúnum, Amsterdam, Frankfurt, París, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi hafa markaðir hækkað á milli þess sem gerst hefur í Sviss og Osló.