Hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Evrópu í dag en að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins ásamt lyfjaframleiðendum sem lækkað hafa töluvert í þessari viku.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu skráðu fyrirtækin í Evrópu, lækkaði um 2,1% og hefur því lækkað um 2,5% í þessari viku og 10% í febrúarmánuði.

Eins og fyrr segir lækkuðu bankar og fjármálafyrirtæki nokkuð. Þar fór fremstur í flokki Lloyds bankinn sem lækkaði um 22,3% eftir að hafa tilkynnt um mikið tap á síðasta ári auk þess sem endurfjármögnun bankans er talin verulega óljós.

Þá lækkaði Barclays um 17,4% og HSBC um 7%.

Lyfjaframleiðendurnir AstraZeneca, GlaxoklineSmith og Aventis lækkuðu á bilinu 3,9% - 5%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 2,2%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 1,7% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 2,5%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 1,5% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 1,7%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 2,4%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 0,4% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 2,1%.