Hlutabréfamarkaðir í Evrópu lækkuðu töluvert í dag og hafa nú náð sex ára lágmarki að sögn Reuters fréttastofunnar.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu skráðu félögin í Evrópu, lækkaði um 3,3% og hefur ekki verið lægri frá því í mars árið 2003. Vísitalan, sem lækkaði um 45% á síðasta ári, lækkaði um 7,3% í þessari viku og hefur það sem af er ári lækkað um 11%.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins en að sögn Reuters er enn talin nokkur hætta á þjóðnýtingu banka og virðast hluthafar því vera að losa sig við eignir sínar í þeim. Þannig virðast fjárfestar reyna að losa sig við hlutabréf og kaupa í staðinn skuldabréf og gull en únsan af gulli fór um tíma yfir eitt þúsund dali á mörkuðum í New York í dag.

Sem fyrr segir voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins. Þannig lækkaði Credit Agricole um 9%, Royal Bank of Scotland um 14%, Barclays um 9,5% og Commerzbank um 8,6% svo dæmi séu tekin.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 3,2%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 3,6% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 4,75%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 4,2% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 2,8%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 2,2%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 3,6% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 5,5%.