Hlutabréf á heimsvísu náðu í morgun 9 mánaða hámarki eftir að markaðir hækkuðu í Asíu. Á sama tíma hefur gengi Bandaríkjadals ekki verið lægri á árinu.

Hlutabréf hækkuðu vestanhafs í gær eftir a nýjar tölur sýndu fram á aukna sölu nýrra heimila í Bandaríkjunum. Að sögn Reuters fréttastofunnar þykir það gefa til kynna að fasteignamarkaður sé að taka við sér á ný en í síðustu viku voru birtar tölur sem sýndu að sala notaðra heimila hefur stóraukist síðustu vikur.

Í Asíu hækkuðu markaðir um 0,7% í morgun og hafa því hækkað um 16% frá því í janúar. Þá hefur MSCI Kyrrahafsvísitalan ekki verið hærri frá því í um miðjan október. Í Evróppu er svipaða sögu að segja, þar hafa markaðir hækkað um 0,7% það sem af lifir dags og FTSE 300 vísitalan nú ekki verið hærri frá því í nóvember s.l.

Hlutabréf í Bandaríkjunum hækkuðu örlítið í gær eftir að hafa sýnt rauðar tölur allan daginn. Að sögn Reuters er því spáð að  77% allra félaga í S&P 500 vísitölunni sýni fram á hagnað umfram væntingar á þessum ársfjórðungi.