Hlutabréfamarkaðir nýmarkaðsríkja (e. emerging markets) náðu nýjum hæðum á mánudaginn, sem í kjölfarið hefur orðið til þess að auka á áhyggjur sumra að 50 punkta stýrivaxtalækkun bandaríska seðlabankans í síðustu viku hafi nú þegar valdið nýrri eignabólu á verðbréfamörkuðum.

MSCI-vísitalan, en hún mælir gengisþróun á hlutabréfamörkuðum hjá 25 nýmarkaðsríkjum, hækkaði um 1,1% á mánudaginn og stóð í 1.174 stigum, sem er 28% hærra en það sem hún fór lægst um miðjan ágúst þegar umrótið á fjármálamörkuðum var sem mest. Þrátt fyrir að helstu hlutabréfamarkaðir hafi einnig hækkað yfir sama tímabil - S&P 500 vísitalan hækkaði til dæmis um 5,6% - þá hafa þær hækkanir ekki verið neinu hlutfalli við þær hækkanir sem orðið hafa á nýmörkuðum. Sú staðreynd er ekki síst áhugaverð í ljósi þess að hingað til hafa hlutabréfamarkaðir nýmarkaðsríkja verið taldir líklegri til að falla mikið þegar umrót og óvissuástand ríkir á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, líkt og einkennt hefur ástandið síðustu vikur og mánuði.

Sambærilegt ástand og árið 1998
Sumir sérfræðingar hafa haldið því fram að líkja megi þessum hækkunum við þá eignabólu sem smám saman myndaðist á mörkuðum vestanahafs og í Evrópu í kjölfar skarpra vaxtalækkana Seðlabanka Bandaríkjanna árið 1998 og aftur þremur árum síðar. Undir þetta viðhorf tekur Michael Hartnett, sérfræðingur Merill Lynch um nýmarkaði, en í frétt Financial Times er haft eftir honum að þróunin síðustu misseri sé í raun sambærileg þeirri sem hafi átti sér stað árið 1998 þegar fjármálakreppa varð í Rússlandi ásamt hruni bandaríska vogunarsjóðsins Long-Term Capital Managament. Alan Greenspan, þáverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, brást við þeim aðstæðum með því að lækka stýrivexti bankans í tvígang um 25 punkta.

Að sögn Hartnett snertir lausafjárkrísan á fjármálamörkuðum fremur Bandaríkin heldur en nýmarkaði. Af þeim sökum munu vaxtalækkanir vestanhafs, í því augnamiði að stemma stigum við lausafjárþurrð á peningamörkuðum, beint og óbeint hafa þau áhrif að eignabóla myndast á hlutabréfamörkuðum nýmarkaðsríkja. Hann bætir því við að ef komið verður í veg fyrir samdrátt í alþjóðahagkerfinu - sem flestir telja sennilegt - þá muni þessi þróun halda áfram, en sumir sérfræðingar hafa fært rök fyrir því að hlutabréfamarkaðir í Kína og Hong Kong hafi nú þegar ýmis bólueinkenni. Reynist það mat rétt mun sú bóla að lokum - óumflýjanlega - springa, segir Arnab Das, hjá greiningardeild Dresdner Kleinwort, í samtali við Financial Times.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.