Mikið vatn hefur runnið til sjávar á íslenskum hlutabréfamarkaði á síðustu árum og hvert sem litið er má sjá gríðarlega mikla breytingu. Hækkunin á markaðnum á síðustu árum er ein sú mesta sem orðið hefur í sögunni séu allir hlutabréfamarkaðir heimsins teknir til skoðunar. Samfara hækkuninni hafa tekjur skráðra fyrirtækja, hagnaður, eignir og fjöldi starfsmanna margfaldast. Á sama tíma hefur félögunum fækkað mikið og ásýnd og eðli þeirra breyst. Þetta kemur fram í forsíðuúttekt Viðskiptablaðsins í dag.

Oft hafa menn velt vöngum yfir því hvar íslenski markaðurinn sé staddur á þroskabrautinni hverju sinni en í dag má í raun segja að hann sé loksins orðinn fullorðinn. Það er ekki til nein opinber skilgreining á "fullorðnum" hlutabréfamarkaði en einkenni þroskaðs markaðs er mikil dýpt verðtilboða, lítið verðbil, mikið viðskiptamagn og mikill fjöldi viðskipta. Að þessu leyti hefur orðið mikil bylting hér á landi á einungis nokkrum árum. Áður fyrr gátu oft liðið nokkrir dagar og jafnvel vikur á milli þess að viðskipti urðu með bréf stærstu félaganna í Kauphöllinni. Nú heyrir jafnan til undantekninga ef ekki eru a.m.k. ein viðskipti á dag hjá stærstu félögunum.

Sjá nánar á bls. 12 og 13 í Viðskiptablaðinu í dag.