Frá áramótum hafa rúmlega 8,5 milljarðar króna streymt inn í hlutabréfasjóði fjármálafyrirtækja. Aukningin nemur nærri 28%. Þar af hefur ÍS-15, hlutabréfasjóður Stefnis, stækkað um 6,2 milljarða frá áramótum. Aðrir sjóðir hafa einnig stækkað en alls eru sex hlutabréfasjóðir opnir bæði almenningi og fagfjárfestum. Sjóður Stefnis er langstærstur þeirra.

Ástæður aukins fjármagns sjóðanna eru af sérfræðingum á mörkuðum raktar til nokkurra þátta. Nýskráningar félaga í Kauphöllina á síðasta ári þykja hafa hleypt nokkru lífi í markaðinn og verð hlutabréfa hefur farið ört hækkandi síðustu vikur og mánuði.

Áhugi almennings hefur aukist en almennir fjárfestar leita einkum í hlutabréfasjóðina umfram kaup á einstökum hlutabréfum. Breytingar á innlánum heimila styðja við þá kenningu að almenningur leiti í auknum mæli í hlutabréfasjóði. Innlán heimila hjá innlánsstofnunum hafa lækkað um 32,4% síðan um mitt sumar 2009 og í desember síðastliðnum lækkuðu innlánin um fimm milljarða króna. Það er mesta lækkun milli mánaða á árinu 2012.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.