*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 5. október 2020 11:02

Hlutabréfavelta eykst um fjórðung

Í september voru viðskipti með hlutabréf 161 að jafnaði sem er um 57% hækkun milli ára og þriðjungshækkun milli mánaða.

Ritstjórn
Í september jókst hlutabréfavelta í kauphöll Nasdaq á Íslandi um fjórðung milli mánaða en 0,8% milli ára.

Í nýliðnum september námu heildarviðskipti með hlutabréf 39,3 milljörðum króna eða um 1.786 milljónum króna á dag. Veltan jókst því um fjórðung milli mánaða en 0,8% samanborið við september á fyrra ári. Úrvalsvísitala OMXI10 lækkaði um 0,86% í mánuðinum. Þetta kemur fram í viðskiptayfirliti Nasdaq Iceland.

Heildarfjöldi viðskipta með hlutabréf í september voru 3.546 talsins eða um 161 á dag. Það er þriðjungshækkun frá fyrri mánuði en um 57% hækkun milli ára. Flest viðskipti voru með hlutabréf Icelandair Group, 591 talsins en félagið lauk hlutafjárútboði sínu í september. Næst flest viðskipti voru með bréf Marel, 463 talsins, en mest velta var einnig með bréf Marel sem nam 6,9 milljörðum króna. 

Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Arion banki með mestu hlutdeildina í mánuðinum, tæplega fjórðungs hlutdeild. Fossar markaðir voru með næst mestu hlutdeildina eða tæplega fimmtungs hlutdeild og Íslandsbanki kom þar á eftir með 17,3%.