Viðskipti með hlutabréf í marsmánuði námu 13,9 milljörðum króna eða 732 milljónum á dag að meðaltali. Það er 5% lækkun á milli ára, samanborið við 766 milljóna króna veltu á dag í mars 2012, og 27% lækkun frá fyrri mánuði, en viðskipti með hlutabréf í febrúarmánuði námu 1.006 milljónum á dag að meðaltali.

Mest voru viðskipti með hlutabréf Eimskips fyrir 4.459 milljónir, Icelandair Group fyrir 3.799 milljónir og Marel fyrir 1.679 milljónir króna.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,2% milli mánaða. Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Íslandsbanki með mestu hlutdeildina 33,2%, Landsbankinn með 22,0%, og Arion Banki með 15,8%.

Viðskipti með skuldabréf námu 297 milljörðum í marsmánuði sem samsvarar 15,6 milljarða veltu á dag að meðaltali. Þetta er 23% aukning frá mars á síðasta ári. Alls námu viðskipti með ríkisbréf 117,3 milljörðum en viðskipti með íbúðabréf námu 41,9 milljörðum. Í marsmánuði var Landsbankinn með mestu hlutdeildina 21,3%, MP Banki með 20,5% og Íslandsbanki með 18,6%.