Hlutabréf í Evrópu náðu sér aftur á strik eftir að hafa ekki verið lægri í fimm mánuði í morgun. Hækkaði Stoxx Europe 600 vísitalan um 0,7% í morgun. Hækkunin kom í kjölfar þess að markaðsaðilar hafa minni áhyggjur af átökum milli Bandaríkjamanna og Norður Kóreu að því er Bloomberg fréttastofan greinir frá.

Hafði hún lækkað á föstudag frá hápunkti sínum í maímánuði um 6,1% eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði hótað Norður Kóreu eldi og brennisteini eftir sífelldar hótanir kommúníska einræðisríkisins. Hótaði útlagaríkið meðal annars að skjóta eldflaugum sem geta borið kjarnorkuodda í átt að eyjunni Guam þar sem eru stórar herstöðvar Bandaríkjamanna.

Hótanirnar uxu um allan helming þegar stjórn Trump tóks að fá flest ríki kyrrahafsins, þar á meðal Kína sem lengi hefur staðið á bak við ríkið í raun, til að herða verulega viðskiptaþvinganir á ríkið.