Gengi hlutabréfa í bandaríska tæknifyrirtækinu Apple fór yfir 600 dali á hlut á markaði í Bandaríkjunum í dag. Gengið hefur aldrei verið hærra. Aðeins er mánuður síðan hlutabréfaverðið rauf 500 dala múrinn.

Nýjasta iPad-spjaldtölva rennur af færibandi Apple og í hillur verslana vestanhafs á morgun.

Gengi bréfa í fyrirtækinu hefur hækkað um 47% síðastliðna tólf mánuði, þar af um 10% það sem af er mánuðinum. Þá virðast þeir sem keyptu hlutabréf Apple fyrir áratug aldeilis hafa veðjað á réttan hest. Árið 2002 stóð gengi bréfa Apple í 10 dölum á hlut og hefur eignahlutur þeirra sem enn luma á bréfunum hækkað um 6.000%

Í erlendum fjölmiðlum í dag er bent á að þrátt fyrir gríðarlega gengishækkun upp á síðkastið þá megi fjárfestar eiga von á því að hlutafjáreign þeirra eigi eftir að aukast enn í verði. Bæði bandaríski bankinn Morgan Stanley og fjármálafyrirtækið Canaccord Genuity gera ráð fyrir því í verðmati sínu á fyrirtækinu að hlutabréfaverðið fari yfir 700 dali á hlut.

iPad 2 frá Apple með myndavél
iPad 2 frá Apple með myndavél
© Apple (Apple)