Hlutabréfaverð í AEX Gold, sem Eldur Ólafsson stýrir, hefur fallið um 49% í Kauphöllinni í London frá 10. febrúar þegar félagið tilkynnti að það þyrfti að fresta námugreftri í námu félagsins í Nalunaq á Grænlandi. Á þeim tíma hafa bréf félagsins fallið úr 55 penníum á hlut í 28 penní á hlut. Í tilkynningu frá AEX Gold segir að ferðatakmarkanir vegna heimsfaraldursins hafi gert félaginu illmögulegt að standa við fyrri áform, en vonast var til þess að hefja gullgröft á þessu ári. Þá hefði ferðakostnaður aukist vegna faraldursins sem og að tæki og tól til námugraftar hefðu hækkað í takt við hækkandi hrávöruverð.

Innviðir námunnar sem fyrri eigendur hafa byggt upp væru jafnframt í verra ásigkomulagi en áður var talið. AEX Gold var skráð í Kauphöllina í London í sumar eftir 7,5 milljarða hlutafjárútboð á genginu 45 penní á hlut. Þá tók Sigurbjörn Þorkelsson, stjórnarformaður og aðaleigandi Fossa, ásamt Aðalheiði Magnúsdóttur eiginkonu sinni, jafnframt sæti í stjórn AEX Gold. Fossar Holdings, sem eru í eigu hjónanna, eiga 3,74% hlut í AEX Gold. Þá á Eldur 4,46% hlut. Markaðsvirði AEX Gold er nú ríflega 9 milljarðar króna.