Aðalvísitala hlutabréfa í kauphöllinni í Tyrklandi féll um 10,47% vegna titrings í röðum fjárfesta vegna mótmæla fólks gegn Tayyip Erdogan, forsætisráðherra landsins og ríkisstjórn hans, í borgunum Istanbúl og Ankara um helgina. Á sama tíma lækkaði gengi lírunnar, gjaldmiðils Tyrkja, um 0,8% gagnvart helstu viðskiptamyntum. Gengi hennar hefur ekki verið lægra í 16 mánuði.

Kveikjan að mótmælunum voru áform um byggingu verslunarmiðstöðvar við Taksim-torg í anda herbúða frá tímum Ottóman-veldisins. Þær snérust síðan upp í mótmæli gegn ráðamönnum. Erlendir fjölmiðlar, s.s. breska ríkisútvarpið ( BBC ), segja lögreglu hafa handtekið 1.700 manns vegna þessa.