Hlutabréfaverð hefur lækkað vestanhafs í dag eftir að hafa náð hæstu hæðum eða því sem næst síðustu daga. Hækkaði Dow Jones vísitalan 10 daga í röð sem og S&P vísitalan er innan 1 prósentustig frá eigin meti sem og að Nasdaq vísitalan er ekki langt frá.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í dag hefur gengi Disney lækkað í kjölfar frétta um að fyrirtækið hyggðist setja á fót sína eigin efnisveitu, og hefur lækkun á verði félagsins leitt aðrar lækkanir á markaði.

Þegar þetta er skrifað hefur gengi bréfa Disney lækkað um 3,80% en gengi bréfa Netflix sem hafa verið með efni Disney fyrirtækisins hefur lækkað um 2,02%. Einnig er talið að aukin spenna í samskiptum Bandaríkjanna og Norður Kóreu vegna aukinna viðskiptaþvingana á útlagaríkið, sem Viðskiptablaðið hefur sagt frá, hafi aukið svartsýni markaðsaðila.

Dow Jones vísitalan hefur lækkað í dag um 0,25% í dag niður í 22.031,05 stig, S&P 500 vísitalan hefur lækkað um 0,11% niður í 2.472,88 stig og Nastaq Composite vísitalan hefur lækkað um 0,32% niður í 6.350,00 stig.