Hlutabréf í SeaWorld hafa fallið í verði um 30 prósent á þessum ársfjórðungi. Hlutabréfin lækkuðu umtalsvert í dag eftir að tilkynnt var um lélega afkomu félagsins á síðasta ársfjórðungi. Heildarfjöldi gesta í skemmtigörðunum hefur fækkað um 4,3 prósent síðan í janúar.

Búist er við að tekjur á árinu munu falla um sex til sjö prósent miðað við tekjur árið 2013.

Talið er að heimildarmyndin BlackFish hafi haft þessi áhrif. Heimildarmyndin greindi frá slæmri meðferð á háhyrningum í SeaWorld skemmtigörðunum og hættunni sem þeim fylgdi fyrir þjálfara garðarins.

Mikið hneyksli fylgdi myndinni og hafa því margir sniðgengt SeaWorld en skemmtigarðarnir hafa þó neitað öllum ásökunum um slæma meðferð á háhyrningum.