Viðskipti með hlutabréf á íslenskum hlutabréfamarkaði námu 24.979 milljónum í júní, sem samsvarar 1.315 milljónum á dag. Það er 18% hækkun frá fyrri mánuði, að því er fram kemur í tilkynningu frá Kauphöllinni. Viðskipti með hlutabréf í júni 2013 námu 806 milljónum á dag og því er um 63% hækkun að ræða milli ára.

Mest voru viðskipti með hlutabréf HB Granda, 4.833 milljónir, N1, 4.114 milljónir og Icelandair Group, 3.939 milljónir. Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Arion banki með mestu hlutdeildina í júní, eða 30,9%. Landsbankinn var með 27,3% og Íslandsbanki með 23,5% hlutdeild. Í lok júní voru hlutabréf 17 félaga skráð á Aðalmarkaði og First North Iceland og nemur heildarmarkaðsvirði þeirra 592 milljörðum króna, samanborið við 471 milljarð í júní 2013.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,2% milli mánaða og stendur nú í 1.136 stigum.

122 milljarða viðskipti með skuldabréf

Viðskipti með skuldabréf námu 122 milljörðum í síðasta mánuði sem samsvarar 6,4 milljarða veltu á dag. Þetta er 39% hækkun frá fyrri mánuði og 10% lækkun á milli ára. Á skuldabréfamarkaði var Íslandsbanki með mestu hlutdeildina, eða 25,0%, MP banki með 21,5% og Arion banki með 18,5%. Aðalvísitala skuldabréfa (NOMXIBB) lækkaði um 1,60% í júní og stendur í 1.026,0 stigum. Óverðtryggða skuldabréfavísitala Kauphallarinnar lækkaði um 1,59% í mánuðinum en sú verðtryggða lækkaði um 1,28%.