Hlutabréfaviðskipti í Kauphöll Nasdaq Iceland jukust um 27% á milli ára ef miðað er við fyrri hluta ársins. Námu viðskiptin fyrstu sex mánuðum þessa árs því 367,9 milljörðum króna, en á sama tímabili hækkaði gengi Úrvalsvísitölunnar um 3% að því er Vísir greinir frá.

Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallarinnar segir aukninguna vera meiri en kauphöllin hafi vænst miðað við nýskráningar. „Þetta er umtalsvert meira en skýrist af nýjum félögum á markaði. Þetta er aukin virkni viðskipta,“ segir Magnús.

„Ég held að það skipti töluverðu máli þarna aukinn áhugi erlendra aðila. Svo hefur verið gerjun í sumum geirum, nærtækt í olíu- og smásölugeiranum og fasteignamarkaðurinn á fullri ferð.“

Áhyggjur af lítilli þáttöku almennings og hindrunum á skuldabréfamarkaði

Mest viðskipti voru með bréf Haga, Marels, N1 og Icelandair Group í júnímánuði en auk bréfa Reita eru þetta þau félög sem mest viðskipti hafa verið með á árinu. Magnús hefur nokkrar áhyggjur af hvað lítinn þátt almenningur tekur beint í hlutabréfamarkaðnum, en þess utan er hann heldur ekki ánægður með þróun skuldabréfamarkaðarins.

„Þar er eiginlega erlendum fjárfestum haldið frá markaðnum. Það hefur sett mjög mark sitt á veltuna ekki bara í ár heldur líka í fyrra,“ segir Magnús.

„Veltan á dag er núna og síðustu misseri um fimm milljarðar en var fyrir nokkrum árum átta milljarðar. Þetta góða efnahagsástand og aukni áhugi á Íslandi er ekki að sýna sig á skuldabréfamarkaðnum einfaldlega vegna bindingarskyldunnar.“