GAMMA hefur hafið opinbera birtingu á Hlutabréfavísitölu GAMMA. Hún bætist við Skuldabréfavísitölu GAMMA, sem hefur verið reiknuð og birt  endurgjaldslaust frá árinu 2009. Vísitalan verður sent út daglega í lok dags ásamt skuldabréfavísitölunni.

Fram kemur í tilkynningu frá GAMMA að hlutabréfavísitala GAMMA byggir á aðferðafræði sem Ellert Arnarson, stærðfræðingur hjá GAMMA, útfærði í nýkláraðri ritgerð til meistaraprófs í fjármálahagfræði við Háskóla Íslands. Þar var fjallað um blandaðar eignaverðsvísitölur og þær rannsakaðar í þaula fyrir íslenskan fjármálamarkað, sér í lagi hlutabréfavísitölur og skuldabréfavísitölur.

Uppfært daglega

Vísitalan er uppfærð daglega út frá opinberu lokagengi hvers dags eins og það birtist í Kauphöllinni og eru hlutfallsvigtir hlutabréfanna endurreiknaðar daglega miðað við lokagengi síðasta viðskiptadags á undan og flotleiðrétt markaðsvirði. Hún er bakreiknuð aftur til ársbyrjunar 2009 og hefur hún þá gildið 100; hefur ávöxtun vísitölunnar miðað við lokagengi 24. maí 2013 verið 18,5% á ársgrundvelli frá upphafi.

Vísitalan er í dag sett saman úr sjö fyrirtækjum sem eru Eimskip, Fjarskipti (Vodafone), Hagar, Icelandair, Marel, Reginn og Össur. Samsetningin er endurskoðuð ársfjórðungslega. Við næstu endurskoðun á samsetningu fyrirtækja munu VÍS og TM koma til greina.

Hægt er að fá vísitöluna senda endurgjaldslaust í lok hvers viðskiptadags með því að gerast áskrifandi að vísitölu póstlista GAMMA. Skráning fer fram með því að senda email á [email protected] . Þar má einnig óska eftir nánari upplýsingum og sögulegum gildum. Ekkert gjald er tekið fyrir notkun á Hlutabréfavísitölu GAMMA en óskað er eftir því að heimildar sé getið. Hún mun einnig verða aðgengileg á Bloomberg og hjá Datamarket

Sjá nánari umfjöllun um samsetningu og sögulegt gengi á heimasíðu GAMMA.