Samsetning Hlutabréfavísitölu GAMMA tekur breytingum um mánaðamótin, en frá og með 1. júlí 2015 bætast fasteignafélögin Eik og Reitir við vísitöluna. Þetta kemur fram á vefsíðu fyrirtækisins .

Eftir breytinguna inniheldur vísitalan þrettán fyrirtæki, en þau eru eftirfarandi: Eik, Eimskip, Haga, Icelandair, Marel, Reginn, TM, VÍS, Vodafone, N1, Reitir, Sjóvá og HB Grandi.

Áætluð aukning í markaðsvirði vísitölunnar við þessar breytingar verður um 57 ma. Markaðsvirði Eikar og Reita er um 70 ma. en á móti vegur meðal annars hlutafjárlækkun í N1 sem tekur gildi um mánaðamótin.

Samsetning vísitölunnar tekur mið af veltumestu fyrirtækjunum, þar sem gjaldgengum fyrirtækjum er raðað upp eftir veltu seinustu sex mánaða og þau síðan valin inn í vísitöluna hvert á fætur öðru þar til 90% af flotleiðréttu markaðsvirði allra gjaldgengra fyrirtækja er komið inn í vísitöluna.

Gjaldgeng fyrirtæki teljast þau fyrirtæki sem eru með a.m.k. 10% frjálst flot, gefa út hlutabréf sín í krónum og eru skráð á Aðalmarkað NASDAQ OMX Iceland. Næsta endurstilling á sér stað mánaðamótin september-október 2015.