Hlutabréfavísitalan er nú rétt rúmlega 5.000 stig og er það í annað skipti í dag sem hún fer yfir 5.000 stig. Hækkun dagsins nemur 0,3% en mikil og fjörug viðskipti hafa verið í Kauphöllinni í dag. Nema viðskiptin nú 21.965 milljónum króna.

Íslandsbanki hefur hækkað mest það sem af er degi eða ríflega 3%. Einnig hafa Actavis, Össur, FL Group og Nýherji hækkað. Mest lækkun hefur orðið á bréfum Tryggingamiðstöðvarinnar eða upp á ríflega 2%. Einnig hafa bréf KB banka lækkað eftir ríflega hækkun í gær.