Hlutabréfavísitölur á evrópskum mörkuðum hafa hækkað mikið upp á síðkastið og hafa margar þeirra nú ekki verið hærra skráðar í sex ár eða síðan árið 2008 og fyrr eða áður en fjármálakreppan lagðist á heimshagkerfið af fullum þunga. Þá eru sumar vísitölur í hæstu hæðum.

Fjallað er um málið í breska viðskiptablaðinu Financial Times . Þar er m.a. bent á að S&P 500-vísitalan endaði í 1.897 stigum í gær og hefur hún aldrei verið hærri. Svipaða sögu er að segja af Dax-vísitölunni í Þýskalandi. CAC 40-vísitalan í Frakklandi á hins vegar langt eftir til að ná hæstu hæðum. Hún stendur nú í tæpum 4.500 stigum en var hæst í rúmum 6.600 stigum í ágúst árið 2000. Þessu til viðbótar stendur FTSE-vísitalan í Bretlandi í tæpum 6.850 stigum og er það nálægt hæsta stigi hennar.