Helstu hlutabréfavísitölur heimsins hafa lækkað í dag eftir gengisstyrkingu bandaríkjadals sem olli verðlækkun á markaði. Þá spilar inn í verðþróunina að fjármagnskostnaður Ítalíu og Spánar hefur hækkað verulega frá því þjóðarleiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsríkjanna náðu saman um aðgerðir gegn skuldakreppunni í Evrópu í síðustu viku.

Hlutabréfavísitölurnar hækkuðu hressilega eftir að drög að samkomulagi náðust síðdegis á miðvikudag.

Það sem af er dags hefur FTSE-hlutabréfavísitalan í Bretlandi lækkað um 1,33%, DAX-vísitalan í Þýskalandi fallið um 2,31% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi fallið um 2,22%.

Í Bandaríkjunum hefur Dow Jones-vísitalan laækkað um 1,12%, Nasdaq-vísitalan lækkað um 1,0% og S&P 500-vísitalan lækkað um 1,28%.