Gengi hlutabréfa í svissneska seðlabankanum, sem skráður er í svissnesku kauphöllinni, hefur næstum því tvöfaldast það sem af er ári. Alls hefur virði hlutafjár í bankanum hækkað um 93,9% frá áramótum, úr 3.889 svissneskum frönkum í lok síðasta árs í 7.540 við lokun markaða á fimmtudaginn.

Samkvæmt frétt Financial Times er ekki ljóst hvað liggur að baki þessarar gríðarlegu virðisaukningar í hlutafé bankans. Svissneski seðlabankinn skilaði methagnaði á síðasta ári , eða 54 milljörðum svissneskra franka, og meira en tvöfaldaði hagnaðinn milli ára. Til samanburðar nemur markaðsvirði bankans 754 milljónum svissneskra franka. Hagnaður síðasta árs skýrist einkum af virðisaukningu erlendra hlutabréfa í eignasafni bankans, en bankinn á til að mynda tæplega 100 milljarða dollara í bandarískum hlutabréfum.

Hagnaðartölur bankans ættu þó ekki að skipta miklu máli fyrir hluthafa bankans, sem fá fasta upphæð í arð á hverju ári. Önnur ástæða sem nefnd hefur verið fyrir þessari virðisaukningu er að fjárfestar líta á hlutabréf í bankanum sem örugga eign, en ótti um viðskiptastríð greip um sig á fjármálamörkuðum í mars. Í þeim mánuði hækkaði gengi bréfa í svissneska seðlabankanum um rúmlega 36%.