Frá hruni hafa íslenskir fjárfestar nánast einblínt á skuldabréf sem fjárfestingar, enda brenndu margir sig á hruni hlutabréfamarkaðarins haustið 2008. Margt bendir hins vegar til þess að hugarfarsbreyting liggi í loftinu. Undanfarin ár hefur mátt ná umtalsverðri ávöxtun fjár á skuldabréfamarkaði, en nafnávöxtun á þessum markaði hefur verið á bilinu 10% til 15 prósent frá árinu 2009 og bendir margt til þess að þessi þróun haldi eitthvað áfram.

Hún gerir það hins vegar ekki endalaust, því gengishagnaður á skuldabréfum, sem hefur verið stór hluti nafnávöxtunarinnar síðustu tvö ár, er háður lækkun á ávöxtunarkröfu viðkomandi bréfa.

Eins og Sigþór Jónsson, framkvæmdastjóri Landsbréfa, benti nýlega á er árleg fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna vel á annað hundrað milljarða króna og margir fleiri aðilar vilja og þurfa að ávaxta fé sitt.

Um síðustu áramót fór loks að komast hreyfing á hlutabréfamarkaðinn með skráningu Haga og um hálfu ári síðar fylgdi Reginn í kjölfarið. Bréf Regins hafa hækkað um 24,4% frá skráningu og bréf Haga hafa hækkað um ein 43,7%. Vandinn er sá að þessar skráningar tvær eru vart nema dropi í hafið miðað við eftirspurnina eftir hlutabréfum, þótt um milljarða króna útboð hafi verið að ræða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.