Líkt og greint hefur verið frá verða hlutabréf í stoðtækjaframleiðandanum Össuri tekin úr viðskiptum á föstudag, 25. mars. Kauphöllin mun að eigin frumkvæði taka hlutabréf félagsins til viðskipta að nýju næsta viðskiptadag, mánudaginn 28. mars.

Kauphöllin birtir í dag nánari upplýsingar um hlutabréf Össurar. Þau verða sem fyrr í íslenskum krónum og gerð upp með sama hætti og áður í gegnum verðbréfaskráningu Íslands.

„Athygli er vakin á því að númer tilboðabókarinnar (Orderbook ID) verður hið sama og í fyrri skráningu (þ.e. þeirri sem lýkur 25. mars nk.). Þetta er gert til að auðvelda aðgengi að sögulegum upplýsingum um verð og viðskipti með hlutabréf félagsins í Kauphöllinni,“ segir í tilkynningu Kauphallar.

„Eins og greint var frá í markaðstilkynningu þann 15. mars sl. verða hlutabréf Össurar hf. áfram í OMXI6 vísitölunni og meðhöndlun í öðrum vísitölum verður einnig óbreytt, sjá https://newsclient.omxgroup.com/cdsPublic/viewDisclosure.action?disclosureId=443192&lang=is “

Engin afleiðuviðskipti

Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq OMX á Íslandi, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að ekki verði um nein afleiðuviðskipti að ræða heldur viðskipti með hlutabréf Össurar. „Viðskiptin fara fram með nákvæmlega sama hætti og áður, þau eru gerð upp með sama hætti og fara fram í íslenskum krónum sem áður. Öll bréfin sem slík eru skráð í kauphöllinni,“ segir hann og að hans sögn er engin hætta á því að þeir hluthafar Össurar sem eiga bréf skráð á Íslandi missi arðsrétt eða atkvæðisrétt á hluthafafundum.

Ennfremur segir Páll enga hættu á að seljanleiki bréfanna minnki þannig að hluthafar á Íslandi lokist inni. „Þetta er bara viðbótarmöguleiki fyrir þá. Kauphöllin er ekki að loka á neina möguleika hluthafa með þessu,“ segir hann og bætir við að um þriðjungur hlutafjár Össurar sé á íslenska markaðnum og hér séu langflestir hluthafar og í ljósi þess ætti að vera góður grundvöllur til að halda uppi virkum viðskiptum. „Seljanleikinn mun ráðast af því magni bréfa sem fjárfestar geyma í Verðbréfaskráningu Íslands og ég sé enga ástæða til að ætla að seljanleikinn minnki frá því sem nú er.“