*

laugardagur, 24. október 2020
Innlent 9. september 2020 18:10

Hlutafé aukið um 40 milljónir hluta

Hlutafé Regins verður aukið um 2,2% en ástæða aukningarinnar er til að standa við 545 milljóna arðgreiðslu sem var ákveðin fyrir COVID.

Ritstjórn
Helgi S. Gunnarsson forstjóri Regins.
Haraldur Guðjónsson

Stjórn Regins hefur fengið samþykki fyrir aukningu á hlutafé félagsins um allt að 40 milljónum hluta. Ástæða aukningarinnar er til þess að standa við 545 milljóna króna arðgreiðslu félagsins og tryggja á sama tíma sterka eiginfjár- og lausafjárstöðu þess. Ákvörðunin var samþykkt á hlutahafafundi félagsins fyrr í dag.

Arðgreiðsla félagsins mun fara fram 11. september næstkomandi. Hlutafjárútboðið mun svo standa yfir 22.-23. september. Hluthafar munu fá forgangsrétt að öllum nýjum hlutum í hlutfalli við skráða hlutafjáreign sína, heimildin fellur niður 10. mars 2021. Miðað við núverandi hluti nemur aukningin um 2,2%.

Sjá einnig: Hækka hlutafé til að greiða út arð

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, sagði fyrr í sumar við Viðskiptablaðið að það hafi verið mat lögfræðinga að félagið væri bundið ákvörðun aðalfundar, sem haldinn var rétt áður en heimsfaraldurinn skall á. Félagið gæti orðið skaðabótaskylt ef arðgreiðslunni yrði snúið við og því ákveðið að fara þessa leið.