Ekkert er gefið upp um kaupverðið sem Eik fasteignafélag greiðir fyrir fasteignafélagið Landfestar . Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar, segir í samtali við VB.is það vera trúnaðarmál.

Í tilkynningu Eikar fasteignafélags kemur fram að greitt verður fyrir allt hlutafé Landfesta með útgáfu nýrra hluta sem afhentir verða Arion banka. Bankinn verður eftir viðskiptin stærsti hluthafi Eikar. Með kaupum á Landfestum mun eigið fé Eikar aukast um tæpa 7 milljarða króna og gefur það einhverja hugmynd um kaupverðið.

Ekki liggur fyrir hvenær viðskiptin munu ganga í gegn. Málið verður lagt fyrir hluthafafund Eikar eftir áramótin. Þá er í kaupsamningi gerður fyrirvari um niðurstöðu áreiðanleikakannana og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Gangi allt eftir kann svo að fara að Samkeppniseftirlitið ljúki yfirferð sinni í byrjun sumars.