Stjórn FL Group hefur ákveðið að leggja til við hluthafafund að hlutafé félagsins verði aukið um 44 milljarða króna að markaðsvirði. Með aukningunni er ætlunin að styrkja enn frekar fjárfestingastarfsemi félagsins segir í tilkynningu félagsins. Samkvæmt tillögu sem lögð verður fyrir hluthafafund félagsins verður útboðsgengi FL Group 13,6.

Lagt verður til að unnt verði að greiða fyrir nýtt hlutafé með reiðufé eða hlutabréfum í tíu stærstu félögunum í ICEX-15, en þau eru Kaupþing banki, Landsbankinn, Íslandsbanki, Actavis Group, Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki, Bakkavör, Össur, SÍF, HB-Grandi og Marel. Skal gengi þessara hlutabréfa miðast við skráð lokagengi í Kauphöll Íslands síðasta viðskiptadag fyrir upphaf áskriftartímabils. Verði breyting á gengi þessara félaga meira en 5% til hækkunar eða lækkunar frá hluthafafundi fram að áskriftardegi verður stjórn FL Group heimilt að hafna áskriftum.

Hafa skuldbundið sig til að kaupa fyrir 28 milljarða

Eftir hlutafjáraukninguna verður eigið fé félagsins um 65 milljarðar króna. Stærstu hluthafar FL Group hafa þegar skuldbundið sig til að kaupa hlutafé fyrir 28 milljarða króna í fyrirhuguðu útboði. Þá hefur Kaupþing banki ákveðið að fjárfesta fyrir 5 milljarða króna og Landsbankinn fyrir 3 milljarða króna og greiða fyrir það hlutafé með peningum. Auk þess er áætlað að lykilstarfsmenn FL Group fjárfesti fyrir samtals 3 milljarða króna. Kaupþing banki og Landsbankinn munu verða umsjónaraðilar í fyrirhuguðu hlutafjárútboði sem beint verður að fagfjárfestum. Stefnt er að því að afla 5 milljarða króna til viðbótar, sem bankarnir munu sölutryggja. Verði veruleg umframeftirspurn í útboðinu munu bankarnir skerða sinn hlut. Að útboðinu loknu verður markaðsvirði FL Group um 80 milljarðar króna, miðað við óbreytt gengi.

?Við erum að leggja til grundvallarbreytingu á félaginu með þessari hlutafjáraukningu. Með henni styrkist eiginfjárstaða og efnahagur FL Group til að takast á við stór og áhugaverð fjárfestingaverkefni bæði hér á Íslandi og erlendis. Markmið okkar er að vera leiðandi áhrifafjárfestir með áherslu á Evrópu. Það traust sem bankarnir sýna okkur með vilja til þátttöku í verkefninu er okkur mikils virði. FL Group mun jafnt leita fjárfestingatækifæra á eigin forsendum sem og í samstarfi við aðra öfluga fjárfesta", segir Hannes Smárason forstjóri FL Group í tilkynningu félagsins.
Boðað verður til hluthafafundar á næstu dögum þar sem breyttar áherslur verða kynntar hluthöfum og tillaga um hlutafjáraukningu og stjórnarkjör verður tekin fyrir.