Hlutafé FL Group hefur verið aukið um allt að 64 milljarða króna og eigið fé verður þar af leiðandi 180 milljarðar króna, að því er kemur fram í tilkynningu frá félaginu, sem send var út um leið og boðað er til blaðamannafundar.

Í tilkynningunni kemur fram að FL Group hefur fjárfest í öflugum fasteignafélögum fyrir 53,8 milljarða króna en allar eignirnar eru keyptar af Baugi Group. Félagið eykur hlut sinn í norræna fasteignafélaginu Landic Property úr 2,9% í 39,8%, kaupir 32,3% hlut í Fasteignafélagi Íslands, 49,7% hlut í Þyrpingu, 22,7% hlut í Eik fasteignafélagi og kaupir eignarhluti í alþjóðlegum fasteignasjóðum af Baugi Group.

Kaupin verða fjármögnuð að fullu með útgáfu nýs hlutafjár á genginu 14,7. Í ljósi stærðar útgáfunnar og markaðsaðstæðna, var það niðurstaða stjórnarinnar að útgáfa nýs hlutafjár færi fram á gengi undir markaðsgengi. Jafnframt hefur verið ákveðið að bjóða út nýtt hlutafé til fagfjárfesta og hluthafa á sama gengi.

Í kjölfar kaupanna stefnir FL Group að því að selja ákveðinn hluta ofangreindra eigna til Landic Property. Að mestu er um að ræða alþjóðlega fasteignasjóði og hefur viljayfirlýsing milli FL Group og Landic Property vegna þessa verið undirrituð. Með kaupum á sjóðunum aukast tækifæri Landic Property til frekari vaxtar umtalsvert auk þess sem félagið styrkist verulega. FL Group telur að Landic Property sé vel sett til þess að auka verðmæti þessara eigna. Heildarverðmæti þessara viðskipta er um 13,7 milljarðar króna.

Eftir kaupin eru umsvif félagsins mikil á norrænum fasteignamarkaði. Heildareignir umræddra félaga eru um 574 milljarðar króna, um 3,3 milljónir fermetra eru í eigu þeirra og yfir 4,000 leigutakar í viðskiptum við þau.  Auk þess eru tveir fasteignasjóðir.

Landic Property er leiðandi fasteignafélag á Norðurlöndunum með yfir 500 eignir í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og á Íslandi og eru heildareignir félagsins um 447,3 milljarðar króna (um 5 milljarðar evra). Þyrping. FL Group lýtur á Landic Property sem langtíma fjárfestingu og verður kjölfestufjárfestir í félaginu.  Fasteignafélag Íslands og Eik fasteignafélag eru einnig öflug hvert á sínu sviði, samanlagt með yfir 30 milljarða króna (um 340 milljónir evra) í heildareignir.

Félögin munu heyra undir Private Equity svið FL Group, þar sem fyrir eru m.a. fjárfestingar í fasteignaverkefnum í samstarfi við bandaríska fasteignafélagið Bayrock Group auk eignarhlutar í Eik fasteignafélagi. Fjárfesting í ofangreindum fasteignafélögum er í samræmi við fjárfestingastefnu Private Equity sviðsins, þar sem lögð er áhersla á fjárfestingar í félögum með öflugt sjóðstreymi, góða vaxtamöguleika og reynslumikla stjórnendur. Einnig hefur verið ákveðið að loka starfsstöð félagsins í Danmörku, en þar starfa 5 starfsmenn hjá félaginu. Sú starfssemi verður samþætt við skrifstofu félagsins í London, sem er liður í því að hagræða í rekstri og minnka rekstrarkostnað félagsins.