Hlutafé raftækjaverslunarinnar Hátækni, umboðsaðila Nokia hér á landi, var nýlega aukið um 100 milljónir króna. Viðskiptablaðið greindi frá því í byrjun mars að hlutafé félagsins hefði verið aukið um 80 milljónir króna. Hlutafé félagsins hefur því verið aukið um 180 milljónir króna á frá áramótum.

Hátækni er sem kunnugt er í eigu Olíuverslunar Íslands (OLÍS) en hlutafjáraukningin er að fullu fjármögnuð af eigenda félagsins.

Kristján Gíslason, stjórnarformaður Hátækni, segir í samtali við Viðskiptablaðið að líkt og í mars  sé tilgangur hlutafjáraukningarinnar að styrkja eiginfjárstöðu og rekstur félagsins. Þá rifjar Kristján upp fyrri ummæli sín um að staða Nokia hafi verið erfið síðustu ár og því sé ekkert öðruvísi farið hér á landi.

„Við höfum verið að bæta reksturinn með ýmsum hagræðingaraðgerðum,“ segir Kristján. Þannig hafi félagið meðal annars fært skrifstofur sínar og verkstæði úr húsnæði félagins í Vatnagörðum yfir í verslun Hátækni í Ármúla, en auk þess hafi reynst nauðsynlegt að segja  upp starfsfólki og fara í aðrar hagræðingaraðgerðir.

„Við sjáum þó fram á betri tíma og eigendur félagsins væru ekki að leggja því til aukið fjármagn nema þeir hefðu trú á rekstrinum til lengri tíma,“ segir Kristján.