Allt hlutafé Latabæjar verður fært niður samkvæmt samkomulagi sem kröfuhafar félagsins hafa nú undir höndum. Á þessu samkomulagi mun sóknarfæri fyrirtækisins byggjast samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins. Landsbankinn er stærsti kröfuhafinn og breytir skuldum í hlutafé samkvæmt sömu heimildum. Um nokkuð stóran hóp er að ræða og langflestir eru búnir að sættast á þá lausn sem lögð hefur verið á borð þeirra. Eru kröfuhafar búnir að fara yfir samninginn og verið er að klára undirritun. Talið er fullvíst að það muni ganga mjög fljótt eftir og stutt sé í að hægt verði að kynna niðurstöðuna opinberlega. Áður þarf allt að vera frágengið og því vildu forsvarsmenn Latabæjar ekki gefa upplýsingar um stöðu mála að svo stöddu.

Magnús Scheving áfram eigandi

Magnús Scheving, sem leikið hefur Íþróttaálfinn og er upphafsmaður Latabæjar, var stór hluthafi í félaginu. Hans hlutafé mun þurrkast út eins og annarra samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Hins vegar átti hann inni höfundarréttargreiðslur sem verður breytt í eigið fé. Stofnandi Latabæjar verður því áfram í hluthafahópnum enda mikilvægur fyrir starfið þar sem höfundarréttarsamningar tryggja honum ákveðin ítök í því efni sem notað er. Það flækti alla úrvinnslu á vandasamri stöðu Latabæjar.a