Hlutafé Bílaumboðsins Öskju hefur verið aukið um tæpar 160 milljónir króna. Frosti Bergsson, stjórnarformaður Öskju, segir í samtali við Viðskiptablaðið að þetta sé gert til að styrkja efnahagsreikning félagsins. Aðspurður um það hvort aukið hlutafé sé hluti af skuldauppgjöri vill Frosti ekki tjá sig um það. Hann segir hins vegar að Askja hafi farið í mikið uppbyggingarstarf á síðustu tveimur árum með tilheyrandi endurskipulagningu rekstursins.

„Við vildum styrkja eigið fé félagsins með þessum hætti,“ segir Frosti en bætir því við að síðasta ár hafi verið mjög gott í rekstri og meðal annars verið sett met í sölu Kia bifreiða. Samkvæmt ársreikningi Öskju fyrir árið 2011 nam eigið fé félagsins í árslok um 26 milljónum króna eftir að hafa verið neikvætt um 115 milljónir króna árið áður.