Hlutafé Fasteignafélagsins Sæmundar hf. var aukið um 1,9 milljarða króna, í desember. Víkjandi láni móðurfélags Alvogen Aztiq AB í Svíþjóð var þá breytti í hlutafé.

Fasteignafélagið Sæmundur er eigandi húsnæðis Alvogen og Alvotech við Sæmundargötu í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Í lok desember var tekin fyrsta skóflustunga að 12.500 fermetra viðbyggingu við aðstöðu Alvotech við Sæmundargötu. Verklok eru áætluð í lok árs 2022. Fjárfesting í stækkuninni er áætluð ríflega 10 milljarðar króna.

Fjárfestingafélög Róberts Wessman, forstjóra Alvogen, Árna Harðarsonar, aðstoðarforstjóra félagsins, og viðskiptafélaga þeirra hafa borið nafnið Aztiq. Í síðustu viku var tilkynnt um að færa ætti fjárfestingar Aztiq félaga undir einn hatt í nafni Aztiq fund. Samhliða því hóf Lára Ómarsdóttir fréttamaður störf sem samskiptastjóri Aztiq Fund. Í tilkynningu frá félaginu var greint frá því að stærstu eignir Aztiq Fund væru eignarhlutir í Alvogen, Alvotech og Fasteignafélaginu Sæmundi.

Á vef fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra kemur fram að Róbert Wessman, eigi óbeint 92% eignarhlut í Fasteignafélaginu Sæmundi.

Í árslok 2019 voru eignir Fasteignafélagsins Sæmundar metnar á 6,65 milljarða króna og þar af voru fasteignir félagsins metnar á tæplega 6,4 milljarðar króna. Skuldir námu 6,62 milljörðum, að meðtöldu tveggja milljarða víkjandi láni frá Alvogen Aztiq og eigið fé 30 miljónum króna. Þá námu rekstrartekjur félagsins 846 milljónum króna árið 2019 og hagnaður félagsins var 3 milljónir króna.

Heildarfjárfesting Alvotech í húsnæði, tækjum og þróun á Íslandi, frá stofnun til ársloka 2020, nemur ríflega 100 milljörðum króna, samkvæmt tilkynningu frá Alvotech við skóflustunguna í desember. Gert er ráð fyrir að starfsmannafjöldi fyrirtækisins á Íslandi muni fara úr 410 í um það bil 580 við stækkun húsnæðisins.