SaltPay, móðurfélag Borgunar, sótti 477 milljónir dollara, andvirði um 60 milljarða króna, í hlutafjárútboði í Bandaríkjunum sem lauk í síðustu viku. Félagið hefur þar með safnað tæplega 80 milljörðum króna í hlutafé á fimm mánuðum. Félagið lauk 150 milljóna dollara hlutafjáraukningu, andvirði um 19 milljarða króna í nóvember.

Móðurfélag Salt Pay er skráð á Cayman-eyjum en félagið hefur aukið umsvif sín umtalsvert á síðustu mánuðum með kaupum á félögum bæði í Evrópu, Afríku og Asíu.

Sjá einnig: Eigandi Borgunar sótti 19 milljarða

„Markmið okkar er að þjónusta smá og meðalstór fyrirtæki í Evrópu og hlutafjáraukningar eru til þess fallnar að auðvelda okkur að ná því takmarki,“ segir í stuttu skriflegu svari frá Ali Mazanderani, stjórnarformanni SaltPay, við fyrirspurn Viðskiptablaðsins. Ekki er gefið upp hverjir tóku þátt í hlutafjáraukningunni eða hve stór hlutur í félaginu var seldur.

Keypt fjölda fyrirtækja á síðustu mánuðum

Í viðtali við Viðskiptablaðið í desember sagði Ali að ákveðið hefði verið að hjarta starfseminnar yrði á Íslandi. Félagið hefur einsett sér að þróa lausnir til viðbótar við hefðbundna færsluhirðingu og greiðslumiðlun sem á að veita smáum og meðalstórum fyrirtækjum betri upplýsingar um viðskiptavini sína.

SaltPay er sjáanlega í miklum sóknarhug og er í kapphlaupi um lausnir við mörg af stærstu fjártæknifyrirtækjum heims. Á síðustu mánuðum hefur félagið fest kaup á fjártæknifyrirtækjum í Suður-Afríku, Portúgal, Tékklandi og Bretlandi. Þá eignaðist SaltPay fimmtungshlut í íslenska sprotafyrirtækinu Noona í byrjun ársins eftir að hafa leitt 190 milljóna króna fjárfestingu í félaginu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .