Hlutafé í Torg ehf., útgefanda Fréttablaðsins, var aukið undir lok síðasta árs um 300 milljónir. Þetta er annað árið í röð sem hlutafé er aukið en í árslok 2017 var það hækkað úr 500 þúsund í 150 milljónir. Fyrri hlutafjárhækkunin var greidd með eignum sem 365 miðlar hf., eigandi Torgs, lögðu í félagið.

Samkvæmt gögnum sem send voru fyrirtækjaskrá var sú síðari greidd með umbreytingu á viðskiptaskuld við móðurfélagið. Nafnvirði hlutanna var 150 milljónir en þeir voru seldir á genginu tveimur. Umrædd skuld myndaðist við lánveitingu 365 miðla til Torgs á árinu 2017 en samkvæmt ársreikningi fyrir rekstrarárið nam skuld við tengda aðila 790 milljónum í árslok.

Ársreikningur fyrir 2018 hefur ekki verið birtur en sagt var frá því í Fréttablaðinu í vikunni að 39 milljóna afgangur hefði orðið á rekstri Torgs í fyrra. Eigið fé félagsins nam 502 milljónum. Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir og Helgi Magnússon eiga helmingshlut í Torgi hvort.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .