Rektorar Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík ásamt stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur skrifuðu í dag undir hluthafasamkomulag REYST orkuskólans, sem hefur starfsemi í haust.

Samkvæmt samkomulaginu, sem þau Kristín Ingólfsdóttir, Svafa Grönfeldt og Kjartan Magnússon undirrituðu, verður hlutafélagið í jafnri eigu háskólanna tveggja og Orkuveitunnar. Skráning nemenda á fyrsta starfsár skólans stendur yfir og hefur fjöldi fyrirspurna borist víða að úr veröldinni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá OR.

Jafnframt skrifuðu stjórnarmenn REYST undir stofnsamning hlutafélagsins. Í stjórninni eiga sæti Anna Skúladóttir, stjórnarformaður og fulltrúi Orkuveitunnar, Gunnar Guðni Tómasson, Háskólanum í Reykjavík og Magnús Þór Jónsson, Háskóla Íslands.

REYST er skammstöfun á heiti skólans, sem fullu nafni heitir Reykjavik Energy Graduate School of Sustainable Systems. Kennsla hefst í skólanum haustið 2008 og verður hann til húsa í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur og fer kennsla einnig fram í háskólunum tveimur. Þar mun íslenskum og erlendum stúdentum standa til boða framhaldsnám á háskólastigi í orkuvísindum þar sem grunnþættirnir eru náttúra, tækni og markaður. Háskólarnir tveir eru faglegir bakhjarlar skólans og munu nemendur einnig njóta faglegrar þekkingar innan Orkuveitu Reykjavíkur auk þess sem fyrirtækið er fjárhagslegur bakhjarl skólans.

Rannsóknatengt meistara- og doktorsnám

Í fyrrnefndri tilkynningu kemur fram að aðaláhersla verður lögð á þau svið þar sem Íslendingar hafa samkeppnisforskot.

„Boðið verður upp á rannsóknatengt meistaranám og doktorsnám auk námskeiða fyrir sérfræðinga og stjórnendur fyrirtækja í orkugeiranum og fjármálastofnunum sem og fyrir opinberar stofnanir innan lands og utan. Megináhersla í meistaranáminu verður á jarðhitavísindi til að byrja með og við REYST verða kennd 15 sérsniðin námskeið á sviði orkuvísinda og að auki velja nemendur meistaranámskeið við HÍ og HR. Námið er þverfaglegt þar sem áhersla getur verið á verkfræði, viðskiptafræði eða jarðvísindi," segir í tilkynningunni.