Hlutafélagaskrá fær heimild til að slíta búi hlutafélaga og einkahlutafélaga hafi félögin ekki skilað ársreikningum fyrir þrjú síðustu reikningsár til ársreikningaskrár verði frumvarp atvinnuvegaráðherra að lögum.

Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga. Í fyrsta lagi er lágmarksfjárhæð hlutafjár í hlutafélögum hækkuð úr fjórum milljónum í sex og í einkahlutafélögum verður lágmarksfjárhæð hlutafjár 750.000 krónur.

Þá fær hlutafélagaskrá heimild til að taka bú félags til skipta hafi það ekki staðið skil á ársreikningum um þriggja ára tímabil, en áskilnaður um að reikningurinn sé endurskoðaður og samþykktur fellur á brott.

Að lokum er lögð til breyting á lögum um ársreikninga sem felur það í sér að sektir, sem ársreikningaskrá leggur á vegna vanskila á ársreikningum geti lent á stjórnarmönnum viðkomandi félags. Verði frumvarpið að lögum munu þessar sektir, sem geta numið allt að 500.000 krónum, leggjast óskiptar á stjórnarmenn félagsins ef félagið sjálft greiðir ekki sektina innan 60 daga frá tilkynningu sektarfjárhæðar.