Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður FL Group, segir að hlutafjáraukning félagsins sé ein mögulegra leiða til að renna styrkari stoðum undir eiginfjárstöðu þess. FL hefur farið einna verst út úr lækkun síðustu vikna og mánaða á hlutabréfamarkaði. Frá því að bréf félagsins náðu sínu hæsta gildi um mitt sumar hafa þau lækkað um rúmlega þriðjung í verði, og við lok markaða í gær stóðu bréfin í 19,95 krónum á hlut. Jón Ásgeir segir að Baugur, þriðji stærsti hluthafi FL, sé reiðubúinn að koma með hlutafjárinnspýtingu í félagið:

"Það er einn þeirra möguleika sem stjórn félagsins hefur skoðað. Þrátt fyrir að markaðsvirði félagsins hafi lækkað að undanförnu er undirliggjandi rekstur félagsins ennþá með ágætum. Við ráðum ekki hvernig markaðsvirði eigna félagsins þróast." Að sögn Jóns hefðu núverandi hluthafar forgang í hugsanlegu hlutafjárútboði. Ekki er útséð með hvort valdahlutföll innan félagsins myndu breytast. Aðspurður um hvort annars konar aðgerðir komi til greina, til dæmis að taka önnur félög inn í samstæðuna, segist Jón ekki geta tjáð sig nákvæmlega um það: "Stjórnin hefur þó rætt ýmsa möguleika í þessum efnum."

Nánar er fjallað um hugsanlega hlutafjáraukningu í FL á forsíðu Viðskiptablaðsins.