Stjórn Icelandair hefur lagt til við hlutahafafund heimild til að auka hlutafé sitt til 15. október en félagið hefur sagt að vænt hlutafjárútboð skuli fara fram 14.-15. september. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Á dagskrá fundarins liggja fyrir tvö atriði. Annars vegar að veita stjórn félagsins heimild til að auka hlutafé félagsins og hins vegar að leyfa stjórn félagsins að gefa út áskriftarréttindi.

Báðar heimildir skuli gilda til 15. október næstkomandi en stefnt er að því að útboðið eigi að fara fram 14.-15. september. Heimildin gæti nýst vel ef útboðið skyldi dragast á langinn.

Sjá einnig: Sölutryggja 6 milljarða í Icelandair

Stefnt er að safna að lágmarki 20 milljörðum króna en að hámarki 23 milljörðum þar sem útboðsgengið verður ein króna á hlut. Að auki mun fylgja áskriftarréttindi með hverjum hlut (e. warrant) og geta fjárfestar því keypt 25% hluti til viðbótar á tveggja ára tímabili. Lausnarverðið á áskriftarréttindunum verður einnig ein króna að viðbættum 15% árlegum vöxtum. Lágmarksupphæð fyrir þátttöku í útboðinu verður 250 þúsund krónur.