Bankaráð Íslandsbanka hf. ákvað á fundi sínum í dag að nýta heimild í 4. grein samþykkta frá aðalfundi 8. mars sl. og auka hlutafé bankans um 200 milljónir hluta. Eftir aukninguna er heildarfjöldi hluta í Íslandsbanka hf. 10.200 milljónir. Aukningunni er ætlað að fjármagna almennan vöxt í starfsemi félagsins. Fjárstýringu bankans hefur verið falin sala á bréfunum í gegnum viðskiptakerfi Kauphallarinnar og er stefnt að því að sölunni verði lokið 30. september nk.

Til upplýsingar vegna hlutafjáraukningar var hagnaður Íslandsbanka hf. samkvæmt innanhússuppgjöri 10.608 milljónir króna fyrir skatta á fyrstu 8 mánuðum ársins. Heildareignir samkvæmt efnahagsreikningi 31. ágúst voru 547,6 milljarðar króna. Uppgjör vegna þriðja ársfjórðungs verður birt 26. október nk.