Hlutafé lettneska bankans Norvik Bank, áður Lateko Bank, hefur verið aukið um átta milljónir lats eða 11,38 milljónir evra. Það jafngildir um 940 milljónum króna. Að sögn Jóns Helga Guðmundssonar, stjórnarformanns Norvik Bank, er þetta í samræmi við þá stefnu eigenda bankans að styðja jöfnum höndum við útvíkkun bankans með aukningu hlutafjár. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

"Við höfum verið að vaxa mjög ört og höfum verið að styðja við vöxtinn með því að auka við hlutafé. Við munum auka við hlutafé eftir því sem þörf krefur til að styðja við vöxt bankans," sagði Jón Helgi. Allir núverandi hluthafar bankans taka þátt í hlutafjáraukningunni í samræmi við eignarhlut en Straumborg, félag í eigu Jóns Helga og fjölskyldu, fer með 51,06% eignarhlut.

Í lok maí var Norvik Bank í 10 sæti af 24 skráðum bönkum í Lettlandi þegar tekið er mið af eignum. Að sögn Jóns Helga hefur rekstur bankans gengið vel að undanförnu og bankinn hefur verið að vaxa einna hraðast af þeim bönkum sem þeir bera sig saman við. "Við höfum verið með góðan vöxt og rekstur bankans hefur farið fram úr áætlun," sagði Jón Helgi. Að hans sögn er gert ráð fyrir að hagnaður bankans eftir skatta fari yfir 10 milljónir lats eða ríflega 1.200 milljónir króna á þessu ári.

Norvik Bank var að opna nýtt húsnæði í Moskvu fyrir stuttu og var með móttöku í kjölfar heimsóknar íslenskra ráðamanna þangað. Fyrir stuttu fékk bankinn lánshæfismat frá matsfyrirtækinu Moodys og gert er ráð fyrir að Fitch Ratings gefi bankanum nýja einkunn næsta haust en hann er nú með jákvæðar horfur hjá Fitch og einkunnina B+.