Hlutafé Primera Travel Group var aukið um 18 milljón evrur, tæpa 2,4 milljarða króna, fyrr í ár, samkvæmt frétt Vísis . Fjárhagsleg endurskipulagning síðasta vor fól meðal annars í sér að 14,7 milljónum evra var breytt í hlutafé og 3,3 milljónir evra nýs hlutafjár var lagt til.

Félagið spáir hagnaði upp á 748 milljónir króna í ár, en í fyrra tapaði það 720 milljónum. 500 milljóna tap kom þó til vegna niðurfærslu á viðskiptavild.

Andri Már Ingólfsson, forstjóri Primera, segir þriggja ára löngu endurskipulagningarferli nú lokið. Heildareignir nema nú um 18 milljörðum króna, eigið fé 5,8 milljörðum, og eiginfjárhlutfall er því 33%.

Andri segir öll fyrirtæki félagsins hafa verið færð á nýjan tækni- og gagnagrunn, sem hafi aukið netsölu úr fimmtungi allrar sölu í þrjá fjórðu hluta.