Frumvköðlafyrirtækið Takumi tilkynnti nýverið hlutafjáraukningu upp á 1,4 milljónir Bandaríkjadala eða því sem jafngildir 162 milljónum íslenskra króna. Þetta kemur fram á vef Norðurskautsins . Heildarfjárfesting í fyrirtækinu nemur því nú 3,3 milljónum dala.

Mats Stigzelius forstjóri Takumi kveðst spenntur yfir því að bjóða upp á þjónustu Takumi á nýjum mörkuðum. Það hefur verið stöðug aukning í fyrirtækinu á milli ársfjórðunga að hans sögn.

Takumi er íslenskt frumkvöðlafyrirtæki sem hefur átt góðu gengi að fagna að undanförnu í Bretlandi og mun hefja starfsemi í Þýskalandi á komandi mánuðum. Fyrirtækið leiðir saman svokallaða áhrifavalda á samfélagsmiðlum (e. influencers), þ.e. einstaklinga sem eru með yfir 1.000 fylgjendur á Instagram, og fyrirtæki sem eru að leita eftir því að koma vörum sínum á framfæri.

Fyrirtækið stefnir að því að hefja starfsemi í Þýskalandi og Bandaríkjunum. Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu kemur fram að fyrirtækið græðir um 130 þúsund Bandaríkjadali á mánuði og að í hóp viðskiptavina þeirra eru fyrirtækin Domino's, Nickolodeon og Socialyse.

Jökull Sólberg, einn af stofnendum fyrirtækisins, segir í yfirlýsingu að fjármagnið hjálpi Takumi að keyra áfram nýsköpun fyrirtækisins.