Hlutabréf hækkuðu við opnun markaða í New York í dag. Þannig hefur Nasdaq og Dow Jones hækkað um 1,7%, og S&P 500 um 1,6%. Það eru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem hækkuðu í byrjun dags.

Bandaríski fjárfestingabankinn Lehman Brothers jók í dag hlutafé sitt um 4 milljarða Bandaríkjadali með sölu breytilegra skuldabréfa en samkvæmt fréttavef Reuters vill bankinn með þessu sýna trúverðugleika sinn og stöðugleika á markaði.

Lehman Brothers hefur þegar hækkað um 10,7% á mörkuðum í New York í dag og þykir það benda til aukins trausts fjárfesta á bankanum.

Í frétt Reuters kemur fram að orðrómur hafi verið í gangi um veikleika bankans undanfarið en forystumenn Lehman Brothers segja að skortsalar hafi undanfarið reynt að tala gengi bankans niður. Þannig var mikið rætt um það í fjölmiðlum vestanhafs að Lehman Brothers væri „næstur í röðinni“ á eftir Bear Stearns sem seldur var á brunaútsölu um miðjan mars.

Þá hefur Bloomberg eftir ónafngreindum viðmælenda að fréttir af Lehman Brothers sé merki um að „þetta virki ennþá,“ og á þar við fjármálakerfið.

Fréttir af afskriftum UBS og Deutsche Bank frá því í morgunvirðast ekki hafa neikvæð áhrif á markaði. „Allar fréttir um afskriftir þykja gefa vísbendingu um að vandamálunum sé lokið og hægt sé að byrja upp á nýtt,“ hefur Bloomberg fréttaveitan eftir viðmælenda sínum.