Íslandsbanki skýrði í gær frá ákvörðun bankaráðs um að auka hlutafé bankans um 200 milljónir króna að nafnverði. Fjárstýringu Íslandsbanka var falin sala á bréfunum í gegnum viðskiptakerfi Kauphallarinnar en stefnt var að því að sölunni yrði lokið fyrir 30. september næstkomandi. Um miðjan daginn í dag barst önnur tilkynning frá bankanum þess efnis að sölu á umræddum hlutum væri lokið. Meðalverð á hlut í aukningunni var 10,8 krónur og nam söluandvirði hlutafjáraukningarinnar því 2.160 milljónum króna.

Á þetta er bent í Hálffimm fréttum KB banka í dag en þar er einnig bent á að gengi Íslandsbanka fór hæst í 11,3 í viðskiptum dagsins en það er hæsta gengi bankans frá upphafi. Við lokun Kauphallarinnar var gengið komið niður í 11,1 og var markaðsvirði bankans eftir hlutafjáraukninguna því 113,2 ma.kr. í lok dagsins. Markaðsvirði Íslandsbanka hefur aukist um 55,5 ma.kr. á síðustu 12 mánuðum eða um 96,2%.