Friðrik Jóhannsson, forstjóri Straums Burðaráss Fjárfestingabanka, segir að uppgjör félagsins vegna fyrri helmings ársins verði að teljast gott miðað við hvernig markaðurinn hafi verið að þróast. "Það sem mér finnst áhugavert í þessu er að það gengur vel að byggja upp tekjugrunna félagsins," segir Friðrik í samtali við Viðskiptablaðið í dag.

Þóknanatekjur og nettó vaxtatekjur -- og þá erum við bara að horfa á útlán -- nema núna fjórföldum rekstrarkostnaði félagsins. Á sama tíma hefur hlutfall hlutabréfa verið að minnka. Þetta er í samræmi við stefnu bankans um að auka hlut þóknana- og vaxtatekna í heildartekjum."

Friðrik segir að félagið hafi frekar verið á söluhliðinni á hlutabréfum á öðrum ársfjórðungi og minnkað þannig hlutabréfastöðu sína. Til lengri tíma litið sé stefnan að minnka þennan þátt um leið og fyrirtækjaverkefni og útlán eru aukin. Hlutaeign bankans hefur þegar lækkað verulega sem hlutfall af eigin fé og var 103% í lok fyrsta ársfjórðungs samanborið við 144% um síðustu áramót, einkum vegna sölu bankans á eignum. Á öðrum ársfjórðungi hefur hlutfallið lækkað í 82% vegna sölu eigna og lækkunar á mörkuðum.

"Stefnan hefur verið sú að lækka hlutfall fjárfestinga af eigin fé og við munum halda áfram á þeirri braut. Bankinn er með mjög sterka eiginfjárstöðu -- sterkt CAD-hlutfall -- og hefur þess vegna svigrúm til þess að vaxa. Ætlun okkar er að sá vöxtur verði ekki í fjárfestingum heldur verkefnum tengdum fyrirtækjaráðgjöf og útlánum."

Friðrik segir að vel hafi gengið að byggja upp starfsemi félagsins í Danmörku en þar er orðið 10 manna útibú sem hefur verið byggt upp á undanförnum mánuðum og sú starfsemi gengur vel, að sögn Friðriks og verður horft til þess varðandi aðra markaði.

Ætlunin er að horfa enn frekar til Norðurlanda og Bretlands og Friðrik segir að bankinn stefni að því að verða leiðandi fjárfestingabanki á Norðurlöndum. "Okkur hefur gengið vel að koma okkur fyrir í Danmörku og þar hefur starfsemin vaxið. Við keyptum upp mjög litla starfsemi þar og svo hefur það vaxið innri vexti. Þetta hefur gengið vel og við horfum til þess varðandi önnur lönd. Við erum samt opnir fyrir því að vaxa ytri vexti líka ef tækifæri koma upp."