Hlutafjárútboð Össurar [ OSSR ] hefst í dag en útboðið er til takmarkaðs hóps fagfjárfesta. Össur hyggst gefa út allt að 38.059.553 nýja hluti, sem nema tæplega 10% af heildarhlutafé félagsins. Tilgangur útboðsins er að styrkja eiginfjárgrunn félagsins og breikka hlutahafahópinn. Kaupþing banki hf. (Kaupþing) hefur umsjón með útboðinu.  Stjórn Össurar hf. samþykkti á stjórnarfundi 29. október 2007 að hækka hlutafé félagsins með útboði á nýjum hlutum, sem nema allt að 10% af heildarhlutafé félagsins, til takmarkaðs hóps fagfjárfesta. Í kjölfarið mun Össur óska eftir því að nýju hlutirnir verði teknir til viðskipta í OMX Norrænu kauphöllinni Íslandi (OMXI).

Hlutabréfamiðlun Kaupþings mun taka við áskriftum í dag, 30. október 2007, og til kl. 6 síðdegis á morgun, 31. október 2007. Kaupþing og Össur áskilja sér hins vegar rétt til að loka útboðinu fyrr ef um umframáskrift verður að ræða. Össur mun, í samráði við Kaupþing, úthluta nýjum hlutum og áskilur sér rétt til þess að hafna einstökum áskriftum, að hluta til eða öllu leyti.

Tilkynnt verður um niðurstöður útboðsins eigi síðar en kl. 8 síðdegis miðvikudaginn 31. október 2007. Fjárfestar skulu greiða kaupverð nýju hlutanna eigi síðar en kl. 4 síðdegis miðvikudaginn 7. nóvember 2007. Stjórn Össurar mun nýta heimild til hlutafjárhækkunar sem veitt var á aðalfundi félagsins 24. febrúar 2006, þar sem hluthafarnir féllu frá forgangsrétti að þessum nýju hlutum. Verð nýju hlutanna verður á bilinu 101-103 krónur á hlut. Gert er ráð fyrir að nýju hlutirnir verði teknir til viðskipta í OMXI eigi síðar en mánudaginn 12. nóvember 2007.